Evrópumót stúlknalandsliða 2022

Golfklúbburinn Oddur fékk þann heiður á árinu að vera gestgjafi á Evrópumóti stúlknalandsliða og var það í annað sinn sem við höfum verið valin af Evrópska golfsambandinu (EGA) til að halda svona stórmót og við erum afar stolt af því að vita að Urriðavöllur er kominn ofarlega á kortið þegar horft er til mótahalds þeirra bestu í Evrópu.

Mótið var haldið dagana 3. – 9. júlí og svona verkefni hefur vissulega áhrif á félagsmenn og aðgengi þeirra að vellinum en við fundum verulega fyrir því að áhugi og stuðningur okkar félagsmanna til verkefnisins var mikill sem sannaði sig best í því að á annað hundrað sjálfboðaliðar mættu galvaskir og leystu öll verkefni sem upp komu undir dyggri stjórn Laufeyar Sigurðardóttur sem tekið hafði að sér það mikla verkefni að stýra sjálfboðaliðum. Við þökkum öllum sem lögðu hönd á plóginn fyrir þeirra aðstoð og þökkum félagsmönnum fyrir að lána okkur völlinn.

Við héldum utan um mótið fréttalega og myndalega á facebook síðu mótsins sem hægt er að skoða með því að smella hér og svo er stór myndabanki um mótið á síðu gsí (smelltu hér) 

Sigurvegarar mótsins var lið Frakklands, okkar stúlkur í Íslenska landsliðinu höfnuðu í 17. sæti.