Skýrsla mótanefndar

Vorið 2022 tók ný mótanefnd til starfa eftir að formaður klúbbsins kom að máli við Laufeyju Sigurðardóttir og óskaði eftir að hún tæki að sér formennsku í nefndinni.  Þegar þetta var handsalað var farið á fullt að finna félagsmenn í mótanefnd sem tókst afbragðs vel.  Aðrir nefndarmenn voru Óskar Bjarni Ingason, Skúli Ágúst Arnarson, Halldór Einir Smárason, Sigríður Björnsdóttir Birnir og Bjarki Sigurðsson.

Mótanefnd kemur eingöngu að innanfélagsmótum sem klúbburinn heldur, Collab-mótaröðin, Meistaramót Odds, tvö opin mót og Bændaglímunni sem starfsmenn klúbbsins skipulögðu að langmestu leiti.

Í Collab-mótaröðinnu í ár voru skráð 36 lið sem spilaðar sex umferðir og voru veitt verðlaun til sigurvegara hverrar umferðar en í lokin voru veitt verðlaun til 18 efstu liðanna sem fengu flest stig út úr 4 bestu hringjunum yfir sumarið og má með sanni segja að allt gat gerst fram á síðasta högg.  Sigurlið sumarsins var DoubleD Lakkalakk en fast á hæla þeirra voru sigurvegarar ársins á undan Fyrirsæturnar og í þriðja sæti var liðið Finngálknin.

Sigurlið DD LakkaLakk í liðakeppni COLLAB – mótaraðarinnar frá vinstri á einum fæti Jón Ævarr Erlingsson, Svavar Geir Svavarsson, Etna Sigurðardóttir, Sólveig Guðmundsdóttir og Jóhann Helgi Ólafsson. Á myndina vantar Ólaf Víði Ólafsson sem var erlendis við keppni eða æfingar.

Meistaramótið fór fram viku síðar en hefðbundið er vegna Evrópumóti stúlknalandsliða sen fór fram fyrstu vikuna í júlí og tókst frábærlega þrátt fyrir að veðurguðirnir hafi ekki verið með okkur í liði alla leikdaga en sjálfboðaliðar klúbbsins eiga heiður skilið fyrir sitt framlag í því móti og vil ég nota tækifærið að þakka ykkur öllum fyrir að gera mitt starf í því móti svona skemmtilegt og vona að klúbburinn nái að skella í eitt skemmti mót fyrir hópinn næsta vor. Takk og aftur takk þið voruð og eruð frábær.

Laufeu Sigurðardóttir tekur hér við blómvendi frá Kára formanni sem þakklætisvott fyrir frábært starf í evrópumóti þar sem laufey sá um skipulag sjálfboðaliða sem var gríðarlega umfangsmikið starf. (innslag ritstjóra ársskýrslu)

Aftur að Meistaramótinu okkar sem fór fram 10.-16. júlí í fínu veðri að mig minnir alla dagana og getum við þakkað Evrópumótinu fyrir að við sluppum við leiðinda veður í vikunni á undan sem aðrir klúbbar á höfuðborgarsvæðinu þurftu að kljást við. Til leiks voru skráðir 258 leikmenn sem spiluðu í 18 flokkum.  Eitt stærsta verkefni mótanefndar er að finna aðila til að ræsa út alla dagana og þegar leitað var til félagsmanna eftir aðstoð stóð ekki á vöskum hópi kvenna og karla sem dreif að til að hjálpa okkur með verkefnið og viljum við þakka ykkur kærlega fyrir aðstoðina og vonum við að sem flestir sjái sér fært að aðstoða mótanefnd við slík verkefni í framtíðinni því eins og sagt er, margar hendur vinna létt verk. Ekki komu upp nein stórmál í mótinu þó svo að alltaf komi upp einhver vafa mál um reglur og hvernig á að framfylgja þeim en við mynnum á að ávallt eru upplýsingar um dómara í mótinu sem glaðir taka á móti erindum frá leikmönnum. Eftir 7 daga mót þar sem flokkar spiluðu mis marga daga voru það Hrafnhildur Guðjónsdóttir og Ottó Axel Bjartmarz sem hömpuðu titlunum klúbbmeistari Odds 2022 í kvenna og karlaflokki.

 

Undanfarin ár hefur verið keppt um titilinn holumeistari Odds og var engin undantekning á því þetta árið en síðustu ár var keppninni skipt upp í karla og kvennamót og að þeim keppnum stóðu uppi sem sigurvegarar Björg Þórarinsdóttir kvenna megin og Guðmundur Ragnarsson karla megin sem kepptu síðan um titilinn Holumeistari Odds og sigurvegarinn 2022 er Guðmundur Ragnarsson.

Við í mótanefnd viljum þakka samstarfið á frábæru golfsumri þar sem margir sigrar voru unnir, forgjöfin lækkuð og jafnvel hækkuð og allt þar á milli. Vona að allir sem aðstoðuðu okkur á síðasta sumri séu tilbúnir að rétta mótanefnd hjálparhönd á næsta golfsumri. Megi veturinn verða okkur ljúfur og munum að njóta líðandi stundar með fjölskyldu og vinum um hátíðarnar sem framundan eru. Vonandi geta sem flestir haldið áfram að æfa golfíþróttina í vetur og sjáum hress og kát á næsta golfsumri.

Kær kveðja

Formaður mótanefndar

Laufey Sigurðardóttir