Framkvæmdir og endurbætur

Völlurinn og endurbætur á svæðinu:

Framkvændir á árinu voru minni í sniðum en oft áður en ekki síður mikilvægar þar sem verkefnin snúast ekki bara um útlit og ásýnd heldur oftast meira hugsaðar til að auka gæði til handa þeim sem um golfvöllinn fara. Þannig var unnið í lagningu gervigrass á stíga á 4, 10 og 11. braut. Biðstaður við 1. teig var útbúinn til að tryggja betur öryggi þeirra sem eru að hefja leik og bíða eftir því að hópurinn á undan hafi klárað sitt upphafshögg. Við vélageymslu var útbúið og steypt upp svæði fyrir ruslagáma.  Við höfum lagt mikla vinnu í lagningu rafmagns út á völlinn sem nýtist fyrir sláttuþjarka og þar kláruðum við uppsetningu á rafmagni við 14 – 16. braut. Á svæðinu var sett upp ný veðurstöð sem við vonandi fáum að njóta góðs af í framtíðinni og félagsmenn geti þá náð í góðar raunupplýsingar um hversu gott veðrið er á svæðinu. Vatnskerfi var endurnýjað í kringum æfingaflatir og 7. teig. Nokkur ný slátturþjarka híbýli voru reist við 16 + 17 + 10 + 12. braut og allur frágangur í kringum þessi svæði er svo kláraður með mosagrasi og látið falla alveg að umhverfi sínu.  

Á haustdögum gafst gífurlega gott svigrum til vinnu eftir að völlurinn lokaði og uppbygging nýrra fremstu teiga á 3. og 7. braut fór lengra en áætlanir stóðu til og það tókst að tyrfa þá teiga einnig sem gæti komið sér vel og við fáum þá vonandi að njóta þess að spila þar fyrr á árinu 2023. Tröppur að fyrsta teig voru teknar upp og endurlagðar. Nokkrar glompur voru endurmótaðar og stærsta breytingin þar er við 10. flötina þar sem glompa vinstra megin við flötina hefur verið endurgerð í átt að upprunalegri mynd og því minnkaði sú glompa töluvert.

Við fengum svo smá malbik frá Garðabæ í lok nóvember og þar var lagt á þjónustuveg í kringum æfingasvæðið við hlið 7. brautar.

Önnur verkefni voru smærri og við þökkum óendanlega fyrir hversu góðir okkar starfsmenn eru í því að ganga í öll verkefni og vinna þau 110 %.

Við fáum árlega lánaða græju frá okkar nágrönnum í GKG til að sinna haustviðhaldi á flötum og könnum við þeim þakkir fyrir það.

Tryggvi vallarstjóri er ávallt fyrstur á svæðið og það má svo sjá hann draga á eftir sér blásara af stærri gerðinni sem heldur betur vinnur gott verk og við sjáum lítið sem ekkert gras eða ummerki um vinnu eins og slátt á þeim leiðum sem kyflinga ganga dags daglega.