Aðalfundur GO 2022
Kæru félagar.
Ég vil þakka öllum félögum í Golfklúbbnum Oddi fyrir samstarfið á nýliðnu starfsári. Þetta starfsár, var viðburðarríkt, við héldum Evrópumót stúlknalandsliða og áfram hélt sú mikla aukning iðkandi í golfíþróttinni sem við höfum séð undanfarin ár. Nú er svo komið að ekki erum við einungis með fulla skráningu í klúbbinn heldur má segja að allt okkar starfssvæði sé í 100% afköstum, er þá sama hvort um ræðir Urriðavöll, Ljúfling eða æfingasvæði okkar. Um fjögur hundruð manns eru nú á biðlista eftir að fá að ganga í klúbbinn og litlar líkur á að við náum að bjóða öllum þeim sem sóttu um 2021 aðild fyrir næsta vor.
Á árinu var áfram unnið að því að fá leyfi til stækkunnar vallarins og fer loka kynning væntanlega í auglýsingu í næstu viku og þá ætti heimild frá Garðabæ að liggja fyrir í febrúar 2023. Ég verð þó að setja þann fyrirvara að þetta er nokkurn vegin sama setning og ég setti í skýrslu stjórnar á síðasta ári, svo enn getur margt gerst. Stækkunin er þó fugl í skógi, því enn á landeigandi svæðisins Styrktar og líknarsjóður Oddfellow, eftir að taka ákvörðun að fara í framkvæmdir en það getur enn tekið einhvern tíma
Það gleður mig mjög að síðastliðið ár hefur stjórnin verið samhent í sínum störfum og þakka ég þeim þeirra störf á árinu. Nú ber svo við að Halla Hallgrímsdóttir hverfur úr stjórn eftir sex ár og þökkum við henni kærlega fyrir hennar mikla starf og Ægir Vopni Ármannsson hefur ákveðið að segja sig úr stjórn þar sem fyrirséð er að hann verður erlendis meira og minna á næsta starfsári og þar af leiðandi vill hann gefa öðrum tækifæri á að starfa fyrir stjórn GO, við þökkum Ægi Vopna innilega fyrir hans framlag til starfsins á síðustu árum. Á starfsárinu lét einnig af störfum Sigurður Ingi Halldórsson er gegndi hlutverki eftirlitsmanns Oddfellow hreyfingarinnar í 13 ár. Berglind Rut Hilmarsdóttir og Jón Sigurður Garðarsson eru í framboði til áframhaldandi setu.
Fastráðnir starfsmenn voru allir þeir sömu en heildarfjöldi vallarstarfsmanna yfir sumarmánuðina jókst aðeins og ekki var vanþörf á, enda tímabilið alltaf að lengjast og verkefnin mörg. Nú í haust lét vélvirkinn okkar, Maron Tryggvi Bjarnason af störfum enda kominn á sjötugasta og sjötta aldursár, þökkum við honum kærlega fyrir vel unnin störf. Og þá má segja frá því að Hrafnhildur Guðjónsdóttir klúbbmeistarinn hefur hafið störf á skrifstofunni, þeim Svavari og Þorvaldi til aðstoðar.
Skráðir félagsmenn í Oddi voru 1793 í lok ársins. Af þeim eru 1.285 með fulla félagsaðild en 508 félagar eru með Ljúflingsaðild. Eins og áður segir eru um 400, væntanlegir félagar á biðlista og ljóst að lítill hluti þeirra mun fá inngöngu á komandi tímabili og þreytist ég ekki á að benda á þetta þegar rædd eru stækkunarmöguleikar golfvallarins. Kvennanefnd, mótanefnd og sjálboðaliðum sem störfuðu við Evrópumótið færi ég sérstakar þakkir fyrir þeirra störf á árinu. Það var eftir því tekið, hvað það var samhentur hópur sem tók á móti efnilegustu stúlknakylfingum Evrópu hér í sumar. Margar kveðjur bárust okkur, þar sem starf okkar var þakkað og sér í lagi starf sjálfboðaliða sem aðstoðuðu keppendur.
Mótanefnd GO í forsvari Laufeyjar Sigurðardóttur hefur staðið einstaklega vel að mótahaldi á árinu og góð þátttaka var í stærstu mótunum okkar. Í meistaramóti GO í ár voru þáttakendur 258. Klúbbmeistari karla er Ottó Axel Bjartmarz og Klúbbmeistari kvenna Hrafnhildur Guðjónsdóttir. Af öðrum íþrótta- afrekum klúbbfélaga má sérstaklega hrósa kvennasveit klúbbsins 65 ára og eldri sem stóðu uppi sem Íslandsmeistarar, en keppt var í þeim flokki í fyrsta sinn síðasta sumar. Hægt er að lesa nánari fréttir af okkar keppnisfólki í skýrslu afreksnefndar.
Mikil aukning í golfíþróttinni hér á landi endurspeglaðist í aukinni aðsókn á golfnámskeið og uppselt var á öll golfnámskeið sem boðið var uppá í sumar og verulega erfitt var að fá einkatíma hjá okkar golfkennurum. Æfingasvæðið okkar var nánast fullt megnið af sumrinu og á álagstímum er næstum ómögulegt að bæta við þjónustuna. Þetta er að verða þreytt saga en ef við ekki stækkum það svæði þar sem hægt er nota til æfinga munum við að lokum þurfa að loka pútt og vippflötum fyrir öðrum en þeim sem greitt hafa fyrir aðgang að svæðinu. Er það verulega slæm niðurstaða enda erum við þá um leið að hamla útbreiðslu íþróttarinnar.
Á tímabilinu 7. maí – 17. október, voru leiknir 41.770 hringir á Urriðavelli 2022 í samanburði við 40.109 hringi 2021. Hér er því um að ræða aukningu um rúm 4%, þrátt fyrir að við höfum lokað vellinum vegna EM stúlkna. Nýting á rástímum er um 75% á þessu tímibili og verður varla séð að það verði hærra. Enn á ný var aukning á spiluðum hringjum á Ljúflingi líkt og sjá má í ársreikningi. Þá voru heimsóknir okkar félagsmanna á vinavelli mun fleiri á nýliðnu sumri en sumarið 2021. Má það að mestu rekja til þess að á meðan á Evrópumótinu stóð, bauð klúbburinn upp á frítt spil á tvo velli. Á Kálfatjarnarvöll á Vatnsleysuströnd og á Brautarholtsvöll á Kjalarnesi voru samtals leiknir 522 hringir þá viku. Það er því ljóst að samningar okkar um spil á þessum völlum, gerðu lokun Urriðavalla ögn léttbærari en annars hefði orðið.
Engar stórkostlegar breytingar voru gerðar á golfvöllum klúbbsins á árinu en starfsmönnum okkar fellur sjaldan verk úr hendi. Það voru þó ýmis verkefni minna sýnileg sem fóru fram fyrri part árs. Má þá helst nefna stíga á 4, 10 og 11. braut. Mikill fjöldi trjágreina var svo fluttur í burtu eftir trjáklippingar vetrar og vors en snyrting trjágróðurs er nú orðinn fastur liður í rekstri svæðisins.
Verkefni sem unnið er að núna og birtist okkur næsta sumar eru nýjir fremri teigar á 3. og 7. holu en nú á síðustu sex árum er búið að endurnýja 7 fremstu teiga á golfvellinum. Það er nauðsynlegt, vegna hins mikla álags að vera stöðugt í endurbótum og lagfæringum og þegar völlurinn var upphaflega lagður var ekki gert ráð fyrir svo miklu álagi á þá teiga. Áfram verður unnið í endurmótun á glompum á nokkrum brautum. Þá er verið að skoða hvernig við fjölgum bílastæðum en það er verkefni næstu stjórnar.
Ný boltavél var tekin í notkun á æfingasvæði en sú eldri gaf upp öndina síðastliðið vor. Sú nýja er nokkuð stærri en eldri vélin og er nú unnið að hönnun á nýju skýli yfir hana. Þá var haldið áfram að fjölga sláttuþjörkum og bættust tveir við á brautum 12. og 14. Til stóð að þeir yrðu fleiri en vegna tafa á afhendingu tókst ekki að koma þeim í notkun. Við höfum í samstarfi við GOF staðið í að endurnýja búnað til að hirða golfvöllinn en verulegar tafir hafa orðið á afhendingu á pöntunum og eigum við núna í pöntun búnað fyrir um 40 milljónir. Samningur sá sem við höfum við GOF, sem er eigandi flest allra tækja sem eru á vellinum, dugar ekki til að halda í við endurnýjunarþörfina. Því fjölgar þeim tækjum sem eru í eigu Golfklúbbsins Odds og sjást þess merki í ársreikningi. Þessi endurnýjun er nauðsynleg til að tryggja gæði golfvallarins og búa starfsmönnum okkar áhugavert starfsumhverfi. Þá er einnig í pöntun 10 nýjir golfbílar sem leigðir eru út af klúbbnum. Hluti eldri bíla hafa verið seldir, hluti nýtist starfsmönnum og koma í stað eldri bíla sem eru orðnir 25 ára gamlir og ónýtir. Við lítum svo á að núverandi endurnýjunarþörf búnaðar sé um 20 milljónir á ári og einungis helmingur hennar rúmast innan leigusamningsins við GOF. Slík endurnýjunarþörf kallar á að klúbburinn sé rekinn með reglulegum hagnaði og hann ber að tryggja í rekstraráætlun. Liðinn er sá tími að við samþykkjum áætlun næsta árs við núllið.
Áfram heldur sú mikla vinna hjá stjórn og starfsmönnum klúbbsins við að undirbúa stækkun golfvallarins en það er lykilverkefni til að tryggja framtíðar tilveru klúbbsins og viðgang golfíþróttarinnar á höfuðborgarsvæðinu. Fyrir sumarið 2021 setti stjórn nýjar reglur um hvenær dagsins, starfsmönnum væri heimilt að selja út rástíma Nú að loknu sumri var ásókn utanaðkomadi aðila að spila golf á okkar velli búin að sprengja af sér sinn ramma. Stjórn ákvað því við gerð fjárhagsáætlunar næsta árs, sem lögð verður fram fyrir fundinn, enn frekar takmark seldra rástíma næsta ár, hvort sem um ræðir til smærri hópa eða til fyrirtækja. Þetta mun þó kosta klúbbinn umtalsverðar tekjur og ljóst að engir aðrir en félagsmenn geta borið það tekjutap.
Það er mikilvægt fyrir nýja stjórn að mynda sér skoðun á því með félögunum, hvernig klúbb við viljum hafa. Nú á þessu starfsári, héldum við Evrópumót stúlknalandsliða sem heppnaðist með eindæmum vel og endaði með verðskulduðum sigri Frakka. Það má segja að Oddur hafi hér staðfest að við erum sá golfklúbbur sem er hvað best til þess fallinn að halda slík mót á Íslandi. Starfsmenn og sjálfboðaliðar saman sem ein hönd gerðu þetta allt sem best úr garði svo að keppendur nytu sín. En það má spyrja sig, hvers vegna klúbbur sem okkar, sem státar af fáum keppniskylfingum, leggur tíma, peninga og orku í að halda slík íþróttamót. Jú það er vegna þess að við erum íþróttafélag og þar til við ákveðum annað þá verður það hlutverk okkar að láta golfvöllinn okkar undir slík mót. Það að golfvöllurinn okkar hafi verið í sínu besta standi í sumar er ekki bara vegna þess að veður var hagstætt. Það er fyrst og fremst vegna þess að klúbburinn og starfsmenn settu mikla orku í að hann yrði það. Og á sama tíma fengu starfsmenn sjaldgæft tækifæri til að bera sína vinnu undir þá fjölmörgu erlendu „sérfræðinga“ sem hingað komu.
Og geta sannarlega státað af því að vera bestir !
Á komandi sumri, nánar tiltekið dagana 10.-13. ágúst verður Íslandsmótið í golfi haldið á Urriðavelli. Það er markmið okkar að völlurinn og svæðið verði hið glæsilegasta, en mótið verður sýnt beint í sjónvarpi allra landsmanna. Vonum við að bæjarfélagið muni standa vel að baki okkur, enda er hér fágætt tækifæri til að koma því á framfæri að Garðabær er jú það sveitarfélag á landinu með hæst hlutfall kylfinga. Nú þegar er hafinn undirbúningur þess og vallarstjóri búinn að skvetta hressilega af áburði yfir kargann í loka sumars. Ný stjórn mun skipa í mótsstjórn nú í janúar og þegar líður að sumri munum við virkja okkar stóra félagsauð sjálfboðaliða sem munu aðstoða við framkvæmdina.
Sjötta árið í röð er hagnaður af rekstri golfklúbbsins. Má það bæði rekja til fjölgunar félagsmanna en einnig til aukins umfangs á öðrum sviðum. Aukið umfang kallar á aukinn starfsmannafjölda til að sinna svæðinu og gestum. Það er Framkvæmdastjórinn sem mun fara yfir reikninga klúbbsins síðar á fundinum.
Árið 2023 verður Golfklúbburinn Oddur 30 ára. Þess munum við minnast á sem glæsilegastan máta en hápunkturinn verður klárlega áðurnefnt Íslandsmót. Aðrir viðburðir verða einnig yfir sumarið og að lokum munum við skella í eina glæsilega golfferð í haust sem verður kynnt í vetur.
Ég vil ljúka þessari skýrslu með því að þakka starfsmönnum klúbbsins fyrir vel unnin störf og öllum þeim sjálfboðaliðum sem vinna óeigingjarnt starf í þágu klúbbsins. Við færum þeim samstarfsaðilum sem lögðu starfseminni lið á liðnu ári sérstakar þakkir. Að lokum þakka ég meðstjórnendum mínum og Hlöðveri Kjartanssyni áheyrnarfulltrúa GOF fyrir samstarfið, en hann tók við af Sigurði Inga. Ég er þakklátur fyrir að hafa haft ykkur með mér í liði á árinu sem leið.
Stjórn Odds þakkar samstarfið á árinu og óskar félagsmönnum sínum gæfu og gleði á nýju ári og þakkar fyrir ánægjulegar samverustundir á árinu sem er að líða.
f.h. stjórnar GO
Kári Sölmundarson