Skýrsla afreksnefndar

Afreksstarf golfklúbbsins Odds var með nokkuð hefðbundna sniði í ár, inniæfingar í aðstöðu GKG í Kórnum í Kópavogi og sumaræfingar á Urriðavelli. Aðstaðan hjá okkur til vetraræfinga er engin og því höfum við þurft að reiða okkur á góðvilja nágranna okkar undanfarin ár en við finnum að það þrengir að þar með auknum áhuga þeirra eigin félagsmanna í að sækja golfnámskeið og æfa sig og öruggt að það kemur að því að við getum ekki búist við því að komast að þar þegar horft er til framtíðar. Við þurfum því nauðsynlega að skoða hvað hægt er að gera, ýta enn frekar á Garðabæ og koma þeim í skilning um að gæta þurfi sanngirnis í stöðu þeirra íþróttafélaga sem starfa í bænum og vilja byggja upp íþróttastarf. Tækifærin eru vissulega til staðar, stór skóli og hverfi að rísa við túnfótinn á Urriðavelli og gífurleg aukning iðkenda á öllum aldri bæði hér hjá okkur og á landsvísu á síðustu árum og staðan þannig í dag að 400 manns eru á biðlista að komast í félagsaðild í okkar klúbb.

Æfingaárið hófst um miðjan janúar 2022. Aðeins dró úr því framboði æfingastunda milli ára eða um c.a. 1/3 í Kórnum og sameinuðum við æfingahópa og nýttum fimmtudags og föstudags eftirmiðdag undir æfingar okkar hópa í ár ásamt því að bjóði ungmennum upp á æfingar tvisvar í viku í klukkustund í senn. Æfingar voru vel sóttar, við æfðum inni fram undir lok mars og þá færðum við æfingar á okkar æfingasvæði Læring þar sem við áttum góðar stundir.
Æfingar fyrir börn og unglinga voru svo áfram í hverri viku í sumar og við stefnum á að fjölga í þeim hópum í vetur til að byggja upp fyrir komandi sumar. Til að styðja vel við þá áætlun okkar höfum við ráðið Hrafnhildi Guðjónsdóttur klúbbmeistara kvenna til starfa hjá klúbbnum en hún er í PGA golfkennaraskólanum og mun sjá um uppbyggingu unglingastarfsins ásamt golfakademíu Odds hér næstu ár og við erum spennt að sjá það starf stækka. Í námi golfkennaraskólans eigum við í GO svo fleiri fulltrúa svo framtíðin er björt en námið sækja auk Hrafnhildar, Sigurður Björn Waage Björnsson og Birkir Þór Baldursson.

 

Golfklúbburinn Oddur átti einn Íslandsmeistara á árinu þar sem Axel Óli Sigurjónsson hampaði Íslandsmeistaratitli golfklúbba 19 – 21 árs, þar sem hann var fulltrúi Odds í sameiginlegri keppnissveit með GS.

Keppnislið GO kvenna í 65+ náði einnig óformlegum Íslandsmeistaratitli þegar þær sigruðu á LEK móti golfklúbba sem haldið var í fyrsta sinn í þessum aldursflokki kvenna, leikið var á velli Nesklúbbsins. Keppnislið GO skipuðu Björg Þórarinsdóttir, Ingibjörg Sigurrós Helgadóttir, Kristín Erna Guðmundsdóttir, Margrét Ólafsdóttir, Hervör Lilja Þorvaldsdóttir og Björg Kristinsdóttir. Frábær árangur hjá okkar konum og óskum við þeim innilega til hamingju með sigurinn.

Við áttum fulltrúa á Íslandsmótinu í golfi í ár þar sem Axel Óli Sigurjónsson og Sigurður Árni Þórðarson tóku þátt í sterku Íslandsmóti sem haldið var í Vestmannaeyjum. Hvorugur þeirra komst í gegnum niðurskurð og léku því bara tvo daga. Á komandi ári verður Íslandsmótið í golfi haldið á Urriðavelli og við hvetjum okkar meistaraflokks kylfinga til að skerpa á æfingum og setja sér markmið um að taka þátt á heimavelli.

Á síðasta ári vann Ingi Þór Hermannsson sér sæti í B – landsliði karla 55+ með forgjöf og fór hann ásamt fríðu föruneyti til Frakklands þar sem ágætis árangur náðist hjá keppnisliðum Íslands. Eftir mótaraðir sumarsins unnu tveir félagar í GO þeir Þór Geirsson og Ragnar Gíslason sér inn landsliðssæti í flokki 65 + með forgjöf og óskum við þeim til hamingju með það. Við áttum marga virka og flotta þátttakendur á LEK mótaröð kylfinga og við hvetjum okkar kylfingar í 50 + til að virkja í sér keppnisandann og stefna hátt.

Ingi Þór er þriðji frá vinstri. Myndin er tekin af Kristínu Þorvaldsdóttur og fengin að láni af facebook síðu LEK

Einn megintilgangur æfingastarfsins er að undirbúa og senda fulltrúa til leiks á Íslandsmót golfklúbba í þeim aldurflokkum sem við erum með æfingahópa. Í ár sendum við sex keppnissveitir til leiks. Meistaraflokka karla og kvenna, lið 50+ karla og kvenna og svo fulltrúa 65 + karla og kvenna sem tóku þátt í LEK móti golfklúbba (óformlegt Íslandsmót þess aldursflokks).

Meistaraflokkur kvenna átti að keppa í 2. deild í ár en reynsla síðasta áratugar í tengslum við það Íslandsmót golfklúbba hefur kennt okkar konum að búast nánast örugglega við því að fá boð um þátttöku í efstu deild. Í ár höfðum við þó meiri trú á því en áður að okkar konur yrðu að sætta sig við það hlutskipti að keppa í 2. deild eftir að hafa verið óslitið í deild þeirra bestu síðan 2013. En eins og áður kom kallið frá GSÍ og þrátt fyrir að undirbúningur og staða liðsins hafi ekki verið alveg með stefnuna á efstu deild þá var ekkert mál að fá okkar konur til að takast á við verkefnið.
Í liði GO í gegnum árin hafa þær Hrafnhildur, Sólveig, Etna, Berglind og Laufey verið okkar aðal kjarni, Auður Skúladóttir bættist svo aftur við okkar keppnissveit í ár eftir smá fjarveru og það var einstaklega gott að fá hana aftur og óreyndari keppniskonur þær Dídí Ásgeirsdóttir og Birgitta Maren Einarsdóttir bættust í liðið. Kristjana gaf ekki kost á sér og Hrönn og Bryndís sem voru í liðinu 2021 voru í barneignarleyfi og liðinu var púslað svona saman með stuttum fyrirvara og okkar konur stóðu sig vel og höfnuðu í 7. Sæti og eru með tryggt sæti að ári í deild þeirra bestu.
Nánar er hægt að skoða úrslit einstakra leikja hér https://www.golf.is/islandsmot-golfklubba-2022-1-deild-kvenna-rastimar-stada-og-urslit/

Keppnislið GO kvenna 2022, Hrafnhildur Guðjónsdóttir, Etna Sigurðardóttir, Berglind Rut Hilmarsdóttir, Sólveig Guðmundsdóttir, Laufey Sigurðardóttir, Auður Skúladóttir, Birgitta Maren Einarsdóttir og Dídí Ásgeirsdóttir.

Meistaraflokkur karla lék í 2. deild eins og undanfarin ár og mótið fór fram í Öndverðarnesi í ár. Á síðasta ári voru okkar kappar nálægt því að keppa um sæti í efstu deild og strax ljóst á æfingum fyrir tímabilið að metnaður var í gangi að gera betur í sumar. Nokkur aukning hefur verið í hópi kylfinga með meistaraflokks forgjöf í GO og ljóst að samkeppni er að aukast sem styrkir vissulega svona keppnislið. Fyrsti leikur okkar manna var við lið heimamanna í Öndverðarnesi og höfðu okkar menn sigur í þeim leik 5 – 0, næsti leikur var við lið Fjallabyggðar þar sem okkar sveit hafði góðan sigur 3-2 og tryggði sig þannig inn í undanúrslit. Þriðji leikur í riðlinum var svo við lið Nesklúbbsins um það hvort liðið myndi sigra riðilinn og þar töpuðu okkar drengir 3-2.
Í undanúrslitum mætti lið GO sterku liði Keilismanna sem nokkuð óvænt féllu í 2. deild í fyrra. Okkar menn sýndu baráttuhug og fóru með leikinn á 18 holu í 4 af 5 viðureignum en leikurinn féll Keilismegin og þeir höfðu sigur 4 -1. Í leik um þriðja sætið mættu okkar menn liði Nesklúbbsins aftur og Nesklúbburinn hafði sigur 4,5 – 0,5 vinningi. Okkar menn urðu því að láta sér 4 sætið duga í ár.

Keppnissveit GO skipuðu, Sigurður Björn Waage Björnsson, Rögnvaldur Magnússon, Axel Óli Sigurjónsson, Tómas Sigurðsson, Skúli Ágúst Arnarson, Bjarki Þór Davíðsson, Óskar Bjarni Ingason og Birkir Þór Baldursson.

 

Við áttum flotta fulltrúa í karla og kvennaflokki á Íslandsmótum golfklúbba 50 +. Konurnar kepptu í efstu deild á Hólmsvelli hjá Golfklúbbi Suðurnesja. Kvennalið GO spilaði flott mót, sigraði fyrsta leik gegn liði Nesklúbbsins en tapaði svo leikjum í riðlakeppninni fyrir liðum Leynis og GR. Í úrslitakeppni um 5 – 8. sæti höfnuðu okkar konur í 5. Sæti eftir naumt tap fyrir GV og góðan sigur á liði GM í lokaumferðinni.

Lið GO kvenna var þannig skipað:
Björg Þórarinsdóttir, Laufey Sigurðardóttir, Ágústa Arna Grétarsdóttir, Unnur Helga Kristjánsdóttir, Anna María Sigurðardóttir, Dídí Ásgeirsdóttir, Hulda Hallgrímsdóttir, Helga Björg Steinþórsdóttir og Aldís Björg Arnardóttir.

Karlalið GO mætti til leiks í Sandgerði í 2. deild karla. Í riðlakeppni mætti lið GO sterkum liðum GFH, GV og GL en okkar menn unnu alla þá leiki örugglega og tryggðu sig inn í undanúrslit. Í undanúrslitum mættu okkar menn liði Setbergs þar sem keppni var jöfn og spennandi en Setbergsmenn höfðu sigur og því var það hlutskipti okkar manna að mæta liði GM í leik um 3. Sætið sem tapaðist og því var niðurstaðan í ár 4. sæti hjá okkar keppnisliði.

Keppnissveit GO var þannig skipuð: Phill Andrew Hunter, Sigurhans Vignir, Svavar Geir Svavarsson, Jóhann Pétur Guðjónsson, Óskar Bjarni Ingason, Ingi Þór Hermannsson, Davíð Arnar Þórsson, Guðjón Steinarsson og Þór Geirsson.

Völlurinn í Öndverðarnesi var í blautara lagi og meðalvindur um 14 metrar í íslandsmóti golfklúbba 65+ hjá körlunum.

Hér ofar var farið yfir glæsilegan árangur keppnisliðs kvenna 65 + sem náði sigri á LEK móti golfklúbba en við áttum að sjálfsögðu okkar fulltrúa karlamegin þar sem okkar menn léku á flottum velli Golfklúbbsins í Öndverðarnesi, verðið setti mikið strik í reikninginn og lengi vel leit út fyrir að mótinu yrði aflýst en þarna eru á ferðinni hörku reynsluboltar í öllum liðum og því var auðvitað stokkið í stígvélin og látið vaða. Eftir hörku riðlakeppni þar sem okkar menn unnu tvo leiki og tryggðu sig inn í undanúrslit þá náðu þeir ekki sama flugi og okkar menn lutu í gras í leikjum við lið Golfklúbbs Reykjavíkur og Keilis og höfnuðu því í 4. Sæti sem er góður árangur.

Keppnislið GO var skipað eftirfarandi leikmönnum.

Ægir Vopni Ármannsson, Ragnar Gíslason, Þór Geirsson, Páll Kristjánsson, Vignir Sigurðsson, Guðmundur Ragnarsson, Gunnlaugur Magnússon, Jóhannes Rúnar Magnússon og Ingi Kristinn Magnússon

Þeir sem tóku þátt í afreksstarfinu í ár fá mínar þakkir fyrir sitt framlag sem frábærir fulltrúar okkar eins og undanfarin ár. Við stefnum á að halda úti góðu starfi á árinu 2023, hugur er í okkar fólki að gera betur á komandi ári og vonum við það svo innilega.

Svavar Geir Svavarsson,
formaður afreksnefndar GO