Skýrsla kvennanefndar 2022

Kvennanefnd árið 2022 skipuðu Halla Bjarnadóttir (formaður), Auður H. Björnsdóttir, Bylgja Valtýsdóttir, Helen Nielsen, Helga Halldórsdóttir, Ingibjörg Baldursdóttur og Salvör Kristín Héðinsdóttir. Sigríður K. Andrésdóttir hætti störfum áður en starfsárið hófst og að loknu starfsári hættu Bylgja, Helga og Auður. Við færum þeim bestu þakkir fyrir vel unnin störf í þágu kvennastarfsins. Árný Davíðsdóttir, Edda Kristín Reynis, Guðbjörg Eiríksdóttir og Sigurlaug Jónsdóttir gengu til liðs við okkur í lok árs og bjóðum við þær hjartanlega velkomnar. Starfsárið var nokkuð hefðbundið en þó öllum líði eins og „þetta sem má ekki nefna“ hafi verið fyrir löngu þá varð það til þess að hið margfræga Kvennakvöldi okkar í mars varð ekki að veruleika.

Púttmótaröðin var með hefðbundnu sniði og var spilað í átta skipti í frábærri aðstöðu í Íþróttamiðstöð GKG. Mikil ánægja var með mótið og aðstöðuna en 57 konur mættu í 231 skipti og púttin urðu 6638 alls. Stefnan var sett á fjölmenna ferð Oddskvenna til La Sella í lok apríl en því miður voru einungis sex konur sem fóru í ferðina. Við nutum engu að síður dvalarinnar á þessum frábæra velli og flotta hóteli.

Sumarstarfið hófst á vel heppnuðu Golf quiz-i sem heppnaðist virkilega vel, þar sem konur reyndu sig við golfreglurnar og örlitla Eurovision upprifjun. Í maí var einnig farið í Vorferðina og endurtókum við leikinn og fórum á Flúðir mæting var heldur minni ef oft áður en 44 konur fóru í ferðina, þær skemmtu sér eins og drottningar og var ánægja með vel heppnaðan dag.

Í júní var Vinkvennamót GO og GK þar sem spilað var tvö daga í röð og sömu holl báða dagana. Fyrri daginn var spilað á Urriðavelli og þann síðari á Hvaleyrarvelli. Okkur Oddskonum tókst að landa sigri fjórða árið í röð og lyftum bikarnum hátt á loft í mikilli gleði. Lokahófið í þessu móti er orðið virkilega stór hluti af viðburðinum enda var mætingin frábær og mikil gleði.

Lúflingsmótið var í ágúst og var fjörlegt og skemmtilegt eins og endranær. Það voru rúmlega fimmtíu litríkar konur sem tókust á við Ljúfling með tveimur kylfum, tóku þátt í ýmsum þrautum og fengi góða næringu reglulega. Deginum lauk með máltíð og verðlaunaafhendingu í skálanum.

Söfnun á fuglum og örnum var með hefðbundnu sniði, kassinn á sínum stað og safnaðist fjöldinn allur af fuglum og fjórir ernir. Ákveðið var að halda áfram að draga reglulega út Fuglaprinsessur yfir sumarið og alls voru dregnar út fjórar prinsessur. Á lokahófinu var Fugladrottning 2022 dregin út.

Lokamót og lokahóf var í lok starfsársins þann 10. september og var góð mæting í mótið þar sem spilað var tveggja manna texas scramble með ýmsum gleðiaukandi leikafbrigðum. Um kvöldið var lokahóf með frábærum veitingum, verðlaunaafhendingu, söng og dansi. Mæting í lokahófið var fremur dræm og stefnir nefndin á að lokahófið 2023 verði viðburður sem enginn vill missa af.

Árið var sem betur fer nokkuð hefðbundið að þessu sinni og ný kvennanefnd er þessa dagana að leggja drög að starfi næsta árs. Undirritið hefur ákveðið að gefa kost á sér sem formaður nefndarinnar í eitt ár til viðbótar og liðsinna arftaka þessa frábæra embættis.

Með kærri Oddskveðju

F.h. kvennanefndar GO

Halla Bjarnadóttir